FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands6 days ago
Svipmyndir frá síðustu viku þegar uppgröftur hófst á nýjan leik í Odda á Rangárvöllum.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 week ago
Rauðavík er hluti af Náttfaravíkum, vestan við Vargsnes, en þar bjuggu m.a. foreldrar Helgu Sörensdóttur, sem Jón Sigurðsson á Ystafelli reit ævisögu um. Rauðavík var fornleifaskráð árið 2023. Samkvæmt örnefnaskrá Vargsness voru þar 18 tóftir verbúða. Við fornleifaskráninguna fundust hins vegar aðeins sex tóftir á yfirborði á umræddu svæði. Við frekari rannsóknir kom í ljós að þarna hefður gríðarlegt landbrot átt sér stað. Þegar uppmælingar á rofbakka strandarinnar var felld yfir loftmynd sem tekin var 1986, kom í ljós að um 25m af undirlendi Rauðuvíkur hafði þegar brotnað í sjó fram. Sótt var um styrk í Fornminjasjóð 2024 til að fara í Rauðuvík til að hreinsa fram nokkur snið í rofbakkann svo að hægt væri að áætla umfangi minja innan víkurinnar og var sú rannsókn unnin sama ár. Í ljós kom að leifar bygginga var að finna eftir allri ströndinni. Í einu sniðinu sem grafið var fram mátti sjá þrjú byggingaskeið og gjósku sem þótti áhugavert að skoða frekar. Aftur var sótt um í Fornminjasjóð 2025, nú til að rannsaka umrædda byggingu og fékk verkefnið aftur úthlutun og voru fornleifafræðingar við rannsóknir á svæðinu í síðustu viku. Hluti tóftar sem sást á yfirborði var grafin fram ásamt þeim eldri byggingarskeiðum sem þar voru undir. Í elsta hlutanum fannst krítarpípa sem ætla má að sé frá 17. eða 18. öld. Á meðan unnið var við rannsóknarstörf í Rauðuvík var hafist við í tjaldi og kom Björgunarsveitin Garðar rannsóknarhópnum ásamt öllum búnaði yfir í Rauðuvík. https://www.facebook.com/share/r/16TJbW5TWU/
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands2 weeks ago
Á dögunum var unnin fornleifaskráning á Flateyjardalsheiði í Þingeyjarsveit, en hún er framhald af eyðibyggðaskráningu sem unnin var árin 2022 og 2023 á Flateyjardal og í Náttfaravíkum. Sem fyrr var skráningin styrkt af Fornminjasjóði og Þingeyjarsveit. Rannsóknarsvæðið nær frá Eyvindará og Grímslandi í norðri að Vestari- og Austari-Krókum í suðri. Strangt til tekið tilheyrðu þó Krókabæirnir Fnjóskadal en ekki heiðinni og voru lengst í byggð af þeim lögbýlum sem skráð voru. Vestari-Krókar fóru í eyði árið 1935 og Austari-Krókar árið 1946.
Mikill fjöldi minja er á Flateyjardalsheiði, þrátt fyrir að þar hafi ábúð jafnan verið stopul, og varðveisla þeirra almennt góð. Heystæði eru án efa algengustu minjarnar en þau skipta tugum og eru dreifð um alla heiðina, þar sem mögulegt var að afla heyja fyrir veturinn.
Meðal þess sem skráningin leiddi í ljós var áður óþekkt fornbýli í landi Vestari-Króka og mikill fjöldi fornlegra tófta á selstæði sömu jarðar, alls 14 talsins. Vatn var leitt inn í brunnhús á flestöllum bæjum á heiðinni og sjást skýr ummerki um mannvirki í tengslum við vatnsveituna. Frekari niðurstöður úr skráningunni verða kynntar í skýrslu að lokinni úrvinnslu.

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)