FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 week ago
Fornleifastofnun Íslands og Gullinsnið luku nýverið umfangsmikilli húsakönnun í Grímsey sem unnin var á árunum 2021-2023. Rannsóknin fólst meðal annars í heimildaúttekt og húsakönnun sem náði til allra íbúðarhúsa í eyjunni og annarra bygginga sem reistar voru fyrir 1960. Einnig voru tekin saman gögn um fjölda horfinna húsa. Samhliða úttekt á byggingararfi 20. aldar var gerð tilraun til að draga upp heildstæða mynd af síðustu torfbæjum Grímseyjar og byggði sú vinna á úttektum, brunavirðingum og ljósmyndum. Á grundvelli þeirra voru gerðar tilgátuteikningar af torfbæjunum sem varpa ljósi á húsagerð þeirra á síðustu öldum.
Verkefnið veitir innsýn í þróun byggðar í Grímsey, frá torfbæjum til timburhúsa og síðar steinsteyptra húsa. Niðurstöður sýna að húsagerð í eyjunni mótaðist af ýmsum þáttum svo sem veðurfari, aðstæðum og samfélagsbreytingum á 20. öld, en í megindráttum fylgdi hún engu að síður almennum þróunarlínum í íslenskri byggingarhefð.
Í verkefninu felst nokkurt nýnæmi í húsakönnun, því þar er eldri og yngri byggingararfur borinn saman á myndrænan hátt og dregin fram samfella og breytingar í byggð á rúmum tveimur öldum. Rannsóknin var unnin í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri og hlaut styrk úr Húsafriðunarsjóði og frá Akureyrarbæ.
Lokaskýrsla verkefnisins, Híbýli í Grímsey: Húsakönnun og byggingararfur, kom út nýverið og áhugasamir geta nálgast skýrsluna hér:
https://doi.org/10.13140/RG.2.2.19643.89123
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands4 weeks ago
Á dögunum kom út ný grein í tímaritinu Landscapes eftir fyrrum starfsmann Fornleifastofnunar, Oscar Aldred. Gylfi Helgason og Elín Hreiðarsdóttir, starfsmenn Fornleifastofnunar, eru einnig meðhöfundar að greininni ásamt góðu samstarfsfólki.

Í greininni er selið á Sökku í Svarfaðardal á Norðurlandi skoðað með ævisögulegri nálgun. Slík nálgun hjálpar okkur ekki aðeins að skilja betur selið sjálft, heldur líka hvað gerðist á svæðinu áður en selið var reist og hvernig svæðið var nýtt eftir að seljabúskap var hætt.

Niðurstöður greinarinnar sýnir m.a hvernig seljabúskapur var hluti af stærra kerfi landnýtingar á staðnum. Greinin undirstrikar líka mikilvægi þess að skoða vel landshætti, fornleifagögn og breytingar á umhverfinu til að skilja betur langtímaþróun byggðar og landnotkun í gamla íslenska bændasamfélaginu.

Greinin er í opnum aðgangi. Allir geta því lesið hana með því að ýta á þennan hlekk:
https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/14662035.2025.2571251
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands3 months ago
Skemmtileg frétt á RÚV um uppgröftinn í Odda sem nú er að ljúka.

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)