FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 day ago
Á dögunum kom út 112. bindi Árbókar Hins íslenzka fornleifafélags. Þar koma starfsmenn Fornleifastofnunar við sögu, en Hildur Gestsdóttir ritstýrir bókinni ásamt Ágústu Edwald. Í bókinni eru líka tvær greinar eftir starfsmenn, annars vegar grein um fornleifaskráningu í Fagurey á Breiðafirði sem unnin var árið 2022 eftir Elínu Ósk Hreiðarsdóttur og Kristborgu Þórsdóttur, og hins vegar myndaþáttur Sólveigar Guðmundsdóttur Beck, „Korn og kvarnir á öldum áður“, sem byggir á doktorsrannsókn hennar. Þar að auki er að finna í bókinni ritdóm um fyrsta bindi Skálholtsrannsókna sem stofnunin gaf út árið 2022.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands6 days ago
Vesturbúðin á Eyrarbakka er samheiti yfir stærstu þyrpingu verslunarhúsa á Íslandi frá einokunartímanum (með síðari tíma viðbótum). Flest bendir til að fyrir miðja 17. öld hafi verslunarbúðirnar verið í landi Einarshafnar fornu, vestan við þorpið en það svæði er illa farið vegna ágangs sjávar og engar minjar er þar að finna. Á Vesturbúðarhól stóðu verslunarhús Eyrarbakkaverslunar frá fyrri hluta 18. aldar og allt fram til ársins 1950 þegar húsin voru rifin og allir viðir úr þeim fluttir burtu. Í Vesturbúðarhól er því að finna einu varðveittu leifarnar af verslunarstaðnum á Eyrum/Eyrarbakka og eru minjarnar því stórmerkar. Vesturbúðarfélagið hyggur á uppbyggingu dönsku verslunarhúsanna eins og þau litu út um 1920, þegar þau hættu að sinna hlutverki sínu sem helsta verslun Sunnlendinga. Markmiðið er m.a. að auka við þekkingu á sögu verslunar á Íslandi sem og sögu Eyrarbakka. Fornleifarannsóknir í Vesturbúðarhól eru forsenda þessara hugmynda enda þarf að kanna þær minjar sem þarna eru áður en hægt er að byggja frekar á svæðinu. Uppgröfturinn veitir einnig nýja og spennandi innsýn í verslunarsöguna sem verður hægt að byggja á í sýningarhaldi og fræðslu. Nú í maí verður grafið í Vesturbúð en þetta er fjórði áfangi rannsókna á svæðinu. Uppgröfturinn mun standa yfir í tvær vikur og stefnt er að því að halda rannsóknum áfram á tveimur vörugeymsluhúsum.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 week ago
Rannsókn á manngerðum hellum í Odda verður fram haldið í sumar en verkefnið hlaut áframhaldandi styrk úr Fornminjasjóði í ár. Markmið rannsóknarinnar er að grafa út annan af tveimur gríðarstórum, hrundum hellum sem eru syðst í túninu í Odda. Í fyrrasumar kom óvænt í ljós stórt, torfhlaðið hús í hellistóftinni sem virðist vera af fjósi. Það var líklega byggt á tímabilinu 1158-1250 en komið úr notkun seint á 15. öld. Til þess að hægt sé að komast í að grafa upp hrunda hellinn þarf að ljúka við að rannsaka þetta nýfundna hús en það er ekki síður áhugavert rannsóknarefni. Framan við það er gryfja, safnþró fyrir mykju, en neðst í henni fannst hrossgröf sem bendir til einhvers konar fórnarathafnar í tengslum við byggingu hússins og gerð gryfjunnar. Eru mörg önnur dæmi um dýrabeinafundi í hellakerfinu í Odda sem hafa verið túlkuð sem fórnir. Hellarannsóknin í Odda mun veita upplýsingar um elstu gerð manngerðra hella hér á landi, hvernig farið var að þegar þeir voru fyrst grafnir út, hvernig hellagerðin og notkun hellanna þróaðist í tímans rás og til hvers þessi gríðarlega stóru mannvirki í Odda voru notuð.

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)